5.4.2011 | 08:27
Simbi sjómaður á Oslóbátnum.
Jæja, svo er maður kominn á nýtt partie (staður í eldhúsi á kokkamáli) Heiti á la carten. Er þar með veitingastaðinn Blue Ribband, sem er einhverskonar fínn Brasserie. Moules Marinére (kræklingar í hvítvíni) steikur og þh. 8 tegundir af smjörpískuðum sósum, 4 teg. af karteflum, 6 mismunandi garni ( meðlæti á kokkamáli) og svo framvegis.
Allt á la minute að sjálrögðu.
Venjulega erum við tveir kokkar þarna, en ég fékk einn lalla (kokkanema á kokamáli) til að þjálfa upp. Hann er ekki sem verstur og er bara frekar áhugasamur um matinn nema þegar eitthvað kvenkyns á leið framhjá. Þá breytist hann í algjöra lóðatík! Blístrandi á eftir þeim í tíma og ótíma og svo á hann það til að labba bara frá steikarpönnuni með steikum á, til þess að gera sig til við einhverja stelpuna Ég hef nú séð marga kvennabósana í gegn um árin og ef ég man rétt þá var ég heldur ekkert guðslamb í þessum málum. En þessi pjakkur slær öllu við sem ég hef séð.
Það tekur smá á að halda guttanum við efnið (matinn) en þetta á víst eftir að ganga vel 7-9-13. Hann er farinn að átta sig á steikargráðunum. Medium rare-medium og allt það og ég vona bara að hann verði sæmó þegar að helginni kemur. Það er von á 1600 gestum um helgina og ekkert sérstaklega mikið pantað í hópmatseðla. Þá deilist þetta enhvernvegin svoleiðis: Seven Seas hlaðborðið tekur ca: 1000 gesti, Steikhúsið ca 200, Kaffihúsið aðra 200 og Blue Ribband 200. Á einu kvöldi, tvo daga í röð.
Við byrjum að preppa (undirbúa á kokkamáli) á fimmtudaginn. En það mallar alltaf í soðpottunum. 150 lítra baðkör full af nautabeinum og grænmeti. Það tekur tvo daga að gera gott nautasoð. Úr svona potti næst 100 l af soði sem er sigtað og soðið niður um helming og svo kæld niður í hraðkælinum, sem er stórt kælibox ca 20 fermetrar sem kælir allt niður á þremur tímum. Þá eru soðin tilbúin til notkunnar í allavega súpur, sósur og gljáa. Maggi, Knorr eða Oscar þekkist ekki um borð á skipinu.
Í dag á ég að vera með kynningu á skyri fyrir kokkana og yfirmennina. Tanta Dorte (yfirkokkurinn) er búin að kaupa helling af Dönsku skyri sem er alveg eins og það Íslenska og án allra bragðefna. Þar ætla ég að gera nokkrar dressingar, Skyrsorbet með hunangi og sultuðum eplum og svo er skyrterta með bláberjum inni á kæli.
Tanta Dorte er "helt oppe at køre" yfir skyrinu og kynningin á að vera í anda hins nýja norræna eldhúss og þar fram eftir götum.
Svo ég læt þessi orð duga og fer að koma mér í gallann. Sterkt kaffi og crossiant bíða mín í messanum og mér er ekkrt að vanbúnaði.
Kveðjur heim og þá sérstakar kveðjur austur fyrir fjall og suður með sjó.
Simbi sjómaður.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2011 | 09:02
Simbi sómaður á Oslóbátnum.
Úff maður hvað tíminn líður. Það er sunnudagur og það er bara lítil vika eftir og svo er ég aftur kominn í sveitasæluna.
Ég var að lesa á Feisið áðan að konan fílar sig bara vel í vorinu heima, garðavinna og sólböð. Ég hlakka til að koma heim og sjá öll fallegu beðin og svo kaffibrúna kellu.
En,,,,,, já! Ég endaði síðast þegar ég var að biðja um létta brunaæfingu. Ég hef greinilega hitt á óskastundina. Við mættum eins og venjulega upp á dekk 12 og biðum svo eftir fyrirmælum um bruna sem aldrei varð úr. Svo við héngum þarna úti á þilfari í ca 3 tíma, litum yfir Osló í vorbúningi þaeas; snjórinn var á undanhaldu og bara einstakir klakar á reki.
Ég og Mads kokur fórum að tala um hvað það væri nú gaman að fara til Svíþjóðar, lengst uppí skóga næsta haust, svona eina langa helgi. Búa í litlum bústað og svo tína ber og jurtir. Hafa að sjálfsögðu helling af krukkum með sér og dehydrator. Æðisleg græja sem þurrkar ber og ávexti, jurtir og allt sem hægt er að þurrka. Bara fara einn og njóta kyrrðarinnar. Svona draumóra finnum við oft uppá þegar við erum þreyttir á hamaganginum, loftræstingunni, konu eða kallaleysinu og svo áfengisleysisins ( það er bannað fyrir áhöfnina að drekka vín og svoleiðis á meðan törninni stendur) Ekki það að við séum að klepra á vinnunni, en við vinnum stanslaust í 16 daga það er stundum þörf á að tala um það villtasta sem manni langar að gera þegar heim er komið og allir vita að þetta eru bara draumórar og maður þarf bara að létta á sér.
Sólin skein í heiði og þetta var bara hin ágætasta æfing.
Svo var þeyst niður og hádegismaturinn keyrður niður í messa. Allir hinir voru á fundi um hagtölur mánaðarins (Ég fékk frí)
Danskar frikadellur með kartöflusalati og agúrkusalati og svo uppáhaldið mitt: Léttsteikt kálfalifur með lauk og sveppum. Það var frekar erfitt að koma sér í gír eftir þann mega skammt en af stað litli kall, það var heilsteikur kjúlli í kvöldmat með brúnni sósu og allez og ég þurfti að vera búinn að steikja 90 kjúklinga fyrir klukkan 2 kæla þá niður og skera niður við trog. Beggi kokkur sem sér um Seven Seas hlaðborðið mætti á slaginu hálf fjögur og þá urðu ofnarnir að vera klárir. Minestronesúpan var klár og tortillagumsið líka og svo var bara að taka allar side orders: Rífa ost, skera agúrkur, lauka og tómata, fylla skálar með allskonar sósum, chutneyum, spírum og sýrðum rjóma. Allt sem hægt er að troða í tortillas eftir smekk, græðgi og góðum siðum.
(eða vöntun á því síðastnefnda)
Eftir tiltekt og hálftíma í sófanum, þá var farið í ræktina og hamast þar dágóða stund. Ég veit ekkert betra en að skreiðast upp í bæli alveg laf, eftir harðan dag og sjóðandi heita sturtu. Það síðastnefnda kostaði mig áminningu frá brúnni, vegna þess að ég opnaði hurðina á baðinu og öll gufan fyllti káetuna og að sjálfsögðu kviknaði á helv. skynjaranum. Sekúndu seinna hringdi síminn og hvöss rödd spurði hvort það væri kviknað í hjá mér. Þegar ég úrskýrði málið fyrir kallium þá hélt ég að hann myndi nú eitthvað mildast, en hann varð bara ennþá verri, gaf mér svo munnlega áminningu fyrir þetta (og öll hin skiftin) og hótaði mér bannfæringu og öllu mögulegu ef þetta kæmi fyrir aftur. Ég sofnaði svo eins og lítið saklaust barn og dreymdi fallegan draum um ónefndan stýrimann sem grátandi bað mig um fyrirgefningu á kokhreystinni. Daginn eftir vaknaði ég eins og nýsleginn túskildingur með brosi á brá.