Færsluflokkur: Mannréttindi

RESPECT. Selfosskirkja, vakandi gegn kynferðisbrotum og kynferðislegu ofbeldi

Þetta er það sem á að koma.

Málefnaleg og yfirveguð stefna þar sem hlustað verður á þolendur og málin rædd, en ekki þögguð niður.

Orð eru til alls fyrst.

Eins og segir í yfirlýsingunni: Sóknarnefnd og starfsfólk Selfosskirkju vill tryggja að kirkjan sé öruggur staður og skjól fyrir þau sem þangað koma.  Við leggjum áherslu á að kynferðisbrot séu til umræðu innan kirkjunnar og að um þau sé rætt sem veruleika og alvarlegt mein í okkar samfélagi sem þurfi að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum“. 

Sjá nánar í meðfylgjandi tengli.

http://dfs.is/frettir/3250-selfosskirkja-vakandi-gegn-kynfereisbrotum-og-kynfereislegu-ofbeldi

Svona á að fara að þessu.

Kærar kveðjur heim á Selfoss.

Gunni Palli Selfyssingur.

 

 


Nú tek ég blaðið frá munninum. Saga mín af barnaníðingum.

Sæl og blessuð.
Ég hef undanfarna daga séð Kastljós eftir það, ákvað ég að segja mína sögu. Sögu mína sem hef lent í kynferðisbrotamönnum. Ekki til að allir færu nú að vorkenna mér og heldur ekki til að bæta mér í skara reiðra manna sem vilja velta barnaníðingum upp úr tjöru og fiðri. Heldur til þess að hjálpa þeim sem hafa lent í því sama. Hvetja þá til þess að koma fram og segja sína sögu. Hversu ljót hún er og minningin sár.                                                                                                                         En svona er hún nú                                                                                                                                                   Ég var í læri til kokks á Hótel Sögu á síðustu öld, nánar tiltekið frá 1981-1985 (þar til að ég útskrifaðist).
Karl Vignir var þá Yfirpiccalo á Sögu og það varð ekki lengi þar til að hann beindi athygli sinni að mér. Ég var þá 18 ára og leit út fyrir að vera 15. Hann mætti mér oft á göngunum (fyrir tilviljun?) og var í alla staði vingjarnlegur maður. Alltaf í góðu skapi, syngjandi og trallandi.
Við töluðumst oft saman um heima og geima. Tónlist, þar sem ég spilaði á brass og gítar og mér virtist kallinn bara vera hinn besti sveinn. Svo stakk hann einu sinni upp á því hvort ég kæmi ekki í heimsókn til hans og við hlustuðum á smá tónlist og sæum video og svo framvegis. Mér fannst svosem ekkert athugavert við það og samþykkti á nóinu. Ekkert mál maður, bara gaman! Kallinn varð feikna glaður og flýtti sér áfram með einhver skilaboðin.                                                                                   Svo liðu dagarnir og ég "rakst" á hann einhverstaðar á göngunum og hann spurði hvort ég drykki ekki áfengi. Það hélt ég nú og flýtti mér áfram hlæjandi. Alltaf brjálað að gera og sjaldan tími til að slugsast og rabba saman í vinnunni. Aftur "hitti" ég hann og hann spurði hvað ég drykki og ég man ekki hvort ég sagði vodki/kók eða brennivín/kahlúa og flýtti mér áfram. Aftur hitti ég hann og hann spurði mig um hvaða myndir mér þættu skemmtilegar og mér fannst einhvernveginn kallinn verða ákafari og ákafari í hvert skiftið. Andadrátturinn þyngri þh. En það var alltaf svo mikið að gera hjá mér sem yngsti nemi á Sögu til að geta lagt saman tvo og tvo.
Svo var það dag einn ég var að vinna í kjötvinnslunni saman með nokkrum öðrum við að úrbeina og ég fór á klósettið sem er við endann á ganginum. Þar sem ég stend og er að pissa þá kemur Kalli æðandi inn og við pissum þarna hlið við hlið eins og köllum einum er lagið.
Þegar við erum svo að þvo okkur um hendurnar þá fer Kalli að tala um að hann hafi keypt brennivín, sígó, myndir, nammi og allt.
Hvenær ég gæti komið í heimsókn????? Við urðum ásáttir um daginn og varð hann æstari og æstari að sjá. Svo kom rothöggið þegar hann fór að tala um að ef ég væri góður drengur þá væri sko allt opið og svo kýldi hann mig léttilega í klofið og blikkaði mig kankvíslega. Mér klossbrá, fattaði á stundinni hvað kallinn hafði í huga og sá allt ferlið fyrir mér á sömu stundu. Í sama augnabliki opnast dyrnar aftur og einn kokkaneminn kemur inn, snarstoppar og fattar strax hvað er í gangi og flýtir sér glottandi út. Þetta hefur sko ekki litið vel út. Skömmin helltist yfir mig eins og hellt væri úr fötu og ég flýtti mér út og inn í kjötvinnslu. Þar var dauðaþögn og allir glottu í barminn í laumi. Ég hélt bara áfram að úrbeina lambalærin eins og ekkert væri í skorist, en inni í mér var ég í losti. Djö......... kallinn þetta skildi hann fá borgað. Svo byrjaði neminn sem kom að okkur að spyrja undirföðrulega hvað ég og Karl Vignir hafi verið að gera inná klósti? Juhhhúúúú!!!!!!! Ég reyndi að láta sem ekkert væri en eftir fleiri og fleiri skot frá hinum nemunum þá brotnaði ég saman og hótaði þeim öllu illu með tárin í augunum ef þeir nokkur sinni myndu segja eitt orð um þetta. Ég var snarbrjálaður. Hnúarnir snjóhvítir sem héldu um skeftið á úrbeiningahnífnum. ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta allthefði farið ef einn kokkurinn hefði ekki komið og sagt hinum að halda kjafti, og svo mér að sleppa hnífnum. Sem ég svo gerði. Það var svo ekki gaman að vera yngsti nemi næstu vikurnar. Skotin dundu á mér og öllum fannst þetta bara fyndið að við Kalli höfum verið að perrast saman inn á klósti.......... Ég gat svosem ekkert gert, þetta fjaraði svo út en það var erfitt að mæta Kalla þar sem hann var sendiboði allra þá var hann allstaðar,,,,, alltaf. Ég skammaðist mín svakalega að hafa bara trúað kallinum og hataði hann gífurlega. Ekki nóg um að kalhelvítið hafði verið að reyna við mig svona lúmskulega og gjörsamlega brugðist trúnaði mínum sem bara vildi sjá góða bíómynd, drekka mig fullan og skemmta mér með góðum vini, en ekkert svona ógeðslegt. Hefði hann bara spurt mig hreint út hvort ég vildi koma heim og geraða. Hefði ég bara getað sagt NEI! ég er ekki hommi takk! og málið bara dautt. En þetta var svo einkennandi fyrir kallinn sem terroriseraði alla piccalóana og litlu nemana sem voru þarna á Sögu. Fá fyrst trúnað þeirra og láta svo til skarar skríða. Þegar ég fór eitthvað að tala við hina nemana þá komu allar sögurnar um litla perran hann Karl Vignir sem króaði alla krakka af,káfaði á þeim þegar enginn sá til. Vitandi um það að skömmin myndi vera til þess að allir héldu kjafti. Við töluðum oft um að klaga kallinn fyrir Konna hótelstjóra en þegar allt kom til alls þá þorði enginn "upp á teppi" til Konráðs og stama upp erindinu, við vorum allir skíthræddir við Konna hótelstjóra. Kalli hafði verið á lengi á Sögu og að koma með einhvern óhróður og ég tala ekki um það að við yngstu nemarnir vorum neðst í goggunarröðinni svo það rann bara einhvernveginn út í sandinn. Kalli var líka vel liðinn hjá "öllum" sérstaklega hjá eldri kynslóðinni. Alltaf með Guðsorð á vörum, kvikur í svörum og leirburðurinn rann útúr honum í formi ferskeytlna og þess háttar. Við áttum á brattan að sækja og reyndum bara að standa saman á okkar hátt og vara litlu pikkalóana við.  Það var alltaf brjálað að gera eins og ég hef áður sagt og sjaldan tími til að vera einhver sáli. Við stálum hinsvegar bara matarvíninu úr eldhúsinu eins og við gátum og svo var brennt niðrí Klúbbinn eða Hollý eftir vinnu og dottið rækilega íða. Þegar við vorum nægilega fullir þá gátum við talað tæpitungulaust um allt. Svona var nú það.
En það sem mér fannst verst var hversu undirlægjulega Karl Vignir fór að þessu öllu. Notfæra sér sakleysi ungra stráka, byrja á trúnaðarskeiðinu og svo þegar enginn sá til að slá til. Fæstir af okkur strákunum höfðum verið með stelpum að ráði og að vera svona ógeð var langt frá öllu því sem við gátum ímyndað okkur að kæmi fyrir. Ekki það að við vissum ekki hvað hommi væri! "Helmingurinn" af þjónaliðinu voru hommar og það fannst mér bara æði. Þeir voru hreinir og beinir og bestu partýin voru þegar þeir voru í meirihluta. Allir vissu hverjir voru "strait" og hverjir "gay" og svo var ekkert talað um það meira. Partí-partí!
En þetta setti allt mitt tilfinngalíf í rúst, sérstaklega þar sem Helgi Hróbjartsson hafði líka misnotað sér aðstöðu sína sem prestur, trúboði og "vinur". Þar var ég ennþá yngri og virkur í félagslífi æskulýðsfélags kirkjunnar á Selfossi. Alltaf í Vatnaskógi með KSS (kristilegum skólasamtökum) Þar var Helgi oft. Svaka gæi og allt. sagði okkur krassandi sögur um stríð í Afríku, heiðingja, mannætur og hvernig hann kristnaði allt og alla. Augun á okkur stóðu á stiklum þegar hann sagði frá. Djö.... maður!!!!! 
Hann talaði líka oft við mig og maður varð upp með sér þegar þessi hetja var að tala við mig!!!
Hann bauð mér að koma í flugtúr og hann flaug heim á Selfoss, við flugum um allt og voða gaman. Honum boðið heim í mat saman með pabba og mömmu þar sem beið dúkað borð og betra stellið tekið fram fyrir guðsmanninn. En það var eftir matinn að hann kom með mér inn í herbergi og lokaði svo hurðinni. Það var smá sem hann vildi tala við mig um..... Það skifti svo engum togum að hann tók mig í faðm sinn, faðmaði mig fast að sér og kyssti mig. Stakk tungunni upp í mig og hvíslaði hvað honum fyndist vænt um mig og hvað hann elskaði mig mikið. Ég var bara 14 eða 15. Kommon! ég fraus gjörsamlega og fannst þetta ferlega ógeðslegt. Man svo ekkert hvernig ég slapp en það næsta sem ég man var að við vorum keyrðir af pabba út á flugvöll á Selfossi og allir kvöddust. Voða vinir. Ég man ekkert hvernig mér leið eða hvað ég hugsaði. Ég man bara að á næstu árum HATAÐI ég kallinn og hætti svo að vera kristinn í nokkur ár. Vildi ekki hætta á að hitta djöfulinn aftur. Þessir báðir atburðir (ásamt einu atviki til)  settu mig gjörsalega úr sambandi tilfinningalega séð. ég gat ekki komið mér í fast samband. Traustið var farið. Hinsvegar reyndi ég við allar þær konur sem ég hitti og gat ekki talað við neina án þess að sjá hana sem tilvonandi rekkjunaut. Gift eða á lausu skifti engu máli. Þá bjó ég á Akureyri og vinir mínir og fjölskylda á Selfossi hélt að ég væri bara hommi, af því að ég var ekki búinn að næla mér í konu. Það var víst bara einfaldast.Smile   En svo var það ekki. Ég var bara ungur drengur með tilfinngarnar í einum rembihnút. Ég drakk allt kaupið mitt út á skemmtistöðum Akureyrar og hafði enga framtíð aðra en ég var góður kokkur. Þessi tilfinngarússíbani fór að lægja þegar ég nálgaðist fertugt og loksins nú um fimmtugt get ég tekið blaðið frá munninum, litið fortíðina augum og sagt ykkur sögu mína. Ég er núna sáttur og er ég hvorki sorrý, svekktur né sár. Ég ber ekkert nag í þessa þrjá menn sem hafa gert mér lífið leitt. Nöfnin á þeim tveim get ég með góðri samvisku sagt þar sem báðir eru nú þekktir fyrir ódæði sín, en nafni hinum þriðja held ég fyrir mig, þar sem ég veit ekkert um hann síðan hann læddist inn í herbergið til mín um hánótt á EDDU hóteli einu hér um árið og vonandi sé ég þann "vin minn" aldrei aftur.
Þessir menn eru veikir, fárveikir. og þeir hafa ábyggilega verið beittir kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru litlir. Það gerist nefnilega oft svona, menn brenglast svakalega í kollinum við svona árásir. Á tímabili var ég skíthræddur að ég myndi brenglast svo mikið í toppstykkinu á ég myndi breytast í það sama skrímsli og þessir misgjörðamenn mínir. En ég slapp vel frá þessu og hef með góðri hjálp konunnar minnar getað unnið mig úr þessu foraði og er ég þó ekki búinn ennþá að súpa kálið úr ausunni.  Það var erfitt að horfa á Kastljós í fyrradag (sá báða þættina í bunu) og taka þá ákvörðun að skrifa þessar línur. en ef ég get orðið til þess að hjálpa einhverjum sem hefur lent í því sama þá er þessi upprifjun þess virði.....

Guð blessi ykkur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband