18.11.2008 | 21:34
Kominn aftur á bloggið.
Jæja, þá er ég reiðubúinn til að skrifa aftur (blogga). Ég hef af og til þörf á því að láta mig hverfa úr bloggheimum, til að finna út úr sjálfum mér og mínu nánasta umhverfi. Svo er nú alltaf nóg að gera. Búinn að leggja verönd úr steinum 30m2 úr grjóti sem ég tíndi hjá bónda einum og fékk hann tvær góðar rauðvínsflöskur fyrir. Þetta verður voða flott núna í vor þegar laukarnir koma upp og við setjum niður plönturnar okkar sem við sáum innan dyra í febrúar-mars á næsta ári.
Sitja þarna með morgunkaffið í morgunsólinni (alltaf sólskin í öllum framtíðaráætlunum) og hádegisbjórinn minn undir skugga perutrésins. Horfa á fugla éta orma og flugur, kettina éta fugla og smádýr og Lappa elta kettina. Allt í hinu mesta bróðerni og rólegheitum.
Ég er búinn að skafa af mér ca. 12-14 kíló síðan í Ágúst í MEGRUNARÁTAKIGUNNAPALLA (sjá síðasta blogg) og er þokkalega ánægður með það, þó að stundum hafi ég svindlað svo að um muni.
Eeeen: við erum hætt að parkera okkur fyrir framan imbann á hverju kveldi með gotterí og við veljum það sem við viljum horfa á. Gerum svo bara eitthvað annað. ÞEAS: GERUM EITTHVAÐ. Setjum múzak á fóninn og tökum til eða gerum konfekt.
Við erum að sjálfsögðu með helling af eplum útí skúr og er ég svo að dunda mér með tilraunir með eplakonfekt og gengur bara vel. Líka eru ca: 80 lítrar af eplasafa útí skúr. Uppskeran á eplaplantekrunni var æði og nú eru öll eplin+saftin komin í hús. Samtals náðum við að pressa 3000 lítra af eplasaft í ár, sem við deildum svo niður á okkur sem eru í eplafélaginu í Dumpedal. Hvað um það, næsta átak er inandyra og þarf ég að brjóta niður vegg og setja annan upp. Hinn gamli er svakalega gamall og algjör handvömm. Svo verður settur upp brenniofn með glerhurð og öllu svo að vetrarstemmingin er garanteruð þegar vetrarstormarnir geysa og jarðbönn á velli. Sénsinn, við fengum síðast vetur sl. Janúar í ca. þrjár vikur með föl og smá hálku. Við erum alveg hætt að halda hvít jól eða rauð. Hérna eru haldin græn jól og basta.
Því er spáð að við fáum veðurfar eins og er í Normandíinu. Eg hef alltaf verið hrifinn af Normandíinu, gróðursældin einstök og veðurfarið milt. Eplatrén okkar á plantekrunni fíla það ábyggilega alveg í botn og gefa betur og betur af sér.
Ég hlakka bara til.
Gunni Palli kokkur. (Gunni granni)