9.1.2013 | 19:30
Nú tek ég blaðið frá munninum. Saga mín af barnaníðingum.
Sæl og blessuð.
Ég hef undanfarna daga séð Kastljós eftir það, ákvað ég að segja mína sögu. Sögu mína sem hef lent í kynferðisbrotamönnum. Ekki til að allir færu nú að vorkenna mér og heldur ekki til að bæta mér í skara reiðra manna sem vilja velta barnaníðingum upp úr tjöru og fiðri. Heldur til þess að hjálpa þeim sem hafa lent í því sama. Hvetja þá til þess að koma fram og segja sína sögu. Hversu ljót hún er og minningin sár. En svona er hún nú Ég var í læri til kokks á Hótel Sögu á síðustu öld, nánar tiltekið frá 1981-1985 (þar til að ég útskrifaðist).
Karl Vignir var þá Yfirpiccalo á Sögu og það varð ekki lengi þar til að hann beindi athygli sinni að mér. Ég var þá 18 ára og leit út fyrir að vera 15. Hann mætti mér oft á göngunum (fyrir tilviljun?) og var í alla staði vingjarnlegur maður. Alltaf í góðu skapi, syngjandi og trallandi.
Við töluðumst oft saman um heima og geima. Tónlist, þar sem ég spilaði á brass og gítar og mér virtist kallinn bara vera hinn besti sveinn. Svo stakk hann einu sinni upp á því hvort ég kæmi ekki í heimsókn til hans og við hlustuðum á smá tónlist og sæum video og svo framvegis. Mér fannst svosem ekkert athugavert við það og samþykkti á nóinu. Ekkert mál maður, bara gaman! Kallinn varð feikna glaður og flýtti sér áfram með einhver skilaboðin. Svo liðu dagarnir og ég "rakst" á hann einhverstaðar á göngunum og hann spurði hvort ég drykki ekki áfengi. Það hélt ég nú og flýtti mér áfram hlæjandi. Alltaf brjálað að gera og sjaldan tími til að slugsast og rabba saman í vinnunni. Aftur "hitti" ég hann og hann spurði hvað ég drykki og ég man ekki hvort ég sagði vodki/kók eða brennivín/kahlúa og flýtti mér áfram. Aftur hitti ég hann og hann spurði mig um hvaða myndir mér þættu skemmtilegar og mér fannst einhvernveginn kallinn verða ákafari og ákafari í hvert skiftið. Andadrátturinn þyngri þh. En það var alltaf svo mikið að gera hjá mér sem yngsti nemi á Sögu til að geta lagt saman tvo og tvo.
Svo var það dag einn ég var að vinna í kjötvinnslunni saman með nokkrum öðrum við að úrbeina og ég fór á klósettið sem er við endann á ganginum. Þar sem ég stend og er að pissa þá kemur Kalli æðandi inn og við pissum þarna hlið við hlið eins og köllum einum er lagið.
Þegar við erum svo að þvo okkur um hendurnar þá fer Kalli að tala um að hann hafi keypt brennivín, sígó, myndir, nammi og allt.
Hvenær ég gæti komið í heimsókn????? Við urðum ásáttir um daginn og varð hann æstari og æstari að sjá. Svo kom rothöggið þegar hann fór að tala um að ef ég væri góður drengur þá væri sko allt opið og svo kýldi hann mig léttilega í klofið og blikkaði mig kankvíslega. Mér klossbrá, fattaði á stundinni hvað kallinn hafði í huga og sá allt ferlið fyrir mér á sömu stundu. Í sama augnabliki opnast dyrnar aftur og einn kokkaneminn kemur inn, snarstoppar og fattar strax hvað er í gangi og flýtir sér glottandi út. Þetta hefur sko ekki litið vel út. Skömmin helltist yfir mig eins og hellt væri úr fötu og ég flýtti mér út og inn í kjötvinnslu. Þar var dauðaþögn og allir glottu í barminn í laumi. Ég hélt bara áfram að úrbeina lambalærin eins og ekkert væri í skorist, en inni í mér var ég í losti. Djö......... kallinn þetta skildi hann fá borgað. Svo byrjaði neminn sem kom að okkur að spyrja undirföðrulega hvað ég og Karl Vignir hafi verið að gera inná klósti? Juhhhúúúú!!!!!!! Ég reyndi að láta sem ekkert væri en eftir fleiri og fleiri skot frá hinum nemunum þá brotnaði ég saman og hótaði þeim öllu illu með tárin í augunum ef þeir nokkur sinni myndu segja eitt orð um þetta. Ég var snarbrjálaður. Hnúarnir snjóhvítir sem héldu um skeftið á úrbeiningahnífnum. ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta allthefði farið ef einn kokkurinn hefði ekki komið og sagt hinum að halda kjafti, og svo mér að sleppa hnífnum. Sem ég svo gerði. Það var svo ekki gaman að vera yngsti nemi næstu vikurnar. Skotin dundu á mér og öllum fannst þetta bara fyndið að við Kalli höfum verið að perrast saman inn á klósti.......... Ég gat svosem ekkert gert, þetta fjaraði svo út en það var erfitt að mæta Kalla þar sem hann var sendiboði allra þá var hann allstaðar,,,,, alltaf. Ég skammaðist mín svakalega að hafa bara trúað kallinum og hataði hann gífurlega. Ekki nóg um að kalhelvítið hafði verið að reyna við mig svona lúmskulega og gjörsamlega brugðist trúnaði mínum sem bara vildi sjá góða bíómynd, drekka mig fullan og skemmta mér með góðum vini, en ekkert svona ógeðslegt. Hefði hann bara spurt mig hreint út hvort ég vildi koma heim og geraða. Hefði ég bara getað sagt NEI! ég er ekki hommi takk! og málið bara dautt. En þetta var svo einkennandi fyrir kallinn sem terroriseraði alla piccalóana og litlu nemana sem voru þarna á Sögu. Fá fyrst trúnað þeirra og láta svo til skarar skríða. Þegar ég fór eitthvað að tala við hina nemana þá komu allar sögurnar um litla perran hann Karl Vignir sem króaði alla krakka af,káfaði á þeim þegar enginn sá til. Vitandi um það að skömmin myndi vera til þess að allir héldu kjafti. Við töluðum oft um að klaga kallinn fyrir Konna hótelstjóra en þegar allt kom til alls þá þorði enginn "upp á teppi" til Konráðs og stama upp erindinu, við vorum allir skíthræddir við Konna hótelstjóra. Kalli hafði verið á lengi á Sögu og að koma með einhvern óhróður og ég tala ekki um það að við yngstu nemarnir vorum neðst í goggunarröðinni svo það rann bara einhvernveginn út í sandinn. Kalli var líka vel liðinn hjá "öllum" sérstaklega hjá eldri kynslóðinni. Alltaf með Guðsorð á vörum, kvikur í svörum og leirburðurinn rann útúr honum í formi ferskeytlna og þess háttar. Við áttum á brattan að sækja og reyndum bara að standa saman á okkar hátt og vara litlu pikkalóana við. Það var alltaf brjálað að gera eins og ég hef áður sagt og sjaldan tími til að vera einhver sáli. Við stálum hinsvegar bara matarvíninu úr eldhúsinu eins og við gátum og svo var brennt niðrí Klúbbinn eða Hollý eftir vinnu og dottið rækilega íða. Þegar við vorum nægilega fullir þá gátum við talað tæpitungulaust um allt. Svona var nú það.
En það sem mér fannst verst var hversu undirlægjulega Karl Vignir fór að þessu öllu. Notfæra sér sakleysi ungra stráka, byrja á trúnaðarskeiðinu og svo þegar enginn sá til að slá til. Fæstir af okkur strákunum höfðum verið með stelpum að ráði og að vera svona ógeð var langt frá öllu því sem við gátum ímyndað okkur að kæmi fyrir. Ekki það að við vissum ekki hvað hommi væri! "Helmingurinn" af þjónaliðinu voru hommar og það fannst mér bara æði. Þeir voru hreinir og beinir og bestu partýin voru þegar þeir voru í meirihluta. Allir vissu hverjir voru "strait" og hverjir "gay" og svo var ekkert talað um það meira. Partí-partí!
En þetta setti allt mitt tilfinngalíf í rúst, sérstaklega þar sem Helgi Hróbjartsson hafði líka misnotað sér aðstöðu sína sem prestur, trúboði og "vinur". Þar var ég ennþá yngri og virkur í félagslífi æskulýðsfélags kirkjunnar á Selfossi. Alltaf í Vatnaskógi með KSS (kristilegum skólasamtökum) Þar var Helgi oft. Svaka gæi og allt. sagði okkur krassandi sögur um stríð í Afríku, heiðingja, mannætur og hvernig hann kristnaði allt og alla. Augun á okkur stóðu á stiklum þegar hann sagði frá. Djö.... maður!!!!!
Hann talaði líka oft við mig og maður varð upp með sér þegar þessi hetja var að tala við mig!!!
Hann bauð mér að koma í flugtúr og hann flaug heim á Selfoss, við flugum um allt og voða gaman. Honum boðið heim í mat saman með pabba og mömmu þar sem beið dúkað borð og betra stellið tekið fram fyrir guðsmanninn. En það var eftir matinn að hann kom með mér inn í herbergi og lokaði svo hurðinni. Það var smá sem hann vildi tala við mig um..... Það skifti svo engum togum að hann tók mig í faðm sinn, faðmaði mig fast að sér og kyssti mig. Stakk tungunni upp í mig og hvíslaði hvað honum fyndist vænt um mig og hvað hann elskaði mig mikið. Ég var bara 14 eða 15. Kommon! ég fraus gjörsamlega og fannst þetta ferlega ógeðslegt. Man svo ekkert hvernig ég slapp en það næsta sem ég man var að við vorum keyrðir af pabba út á flugvöll á Selfossi og allir kvöddust. Voða vinir. Ég man ekkert hvernig mér leið eða hvað ég hugsaði. Ég man bara að á næstu árum HATAÐI ég kallinn og hætti svo að vera kristinn í nokkur ár. Vildi ekki hætta á að hitta djöfulinn aftur. Þessir báðir atburðir (ásamt einu atviki til) settu mig gjörsalega úr sambandi tilfinningalega séð. ég gat ekki komið mér í fast samband. Traustið var farið. Hinsvegar reyndi ég við allar þær konur sem ég hitti og gat ekki talað við neina án þess að sjá hana sem tilvonandi rekkjunaut. Gift eða á lausu skifti engu máli. Þá bjó ég á Akureyri og vinir mínir og fjölskylda á Selfossi hélt að ég væri bara hommi, af því að ég var ekki búinn að næla mér í konu. Það var víst bara einfaldast. En svo var það ekki. Ég var bara ungur drengur með tilfinngarnar í einum rembihnút. Ég drakk allt kaupið mitt út á skemmtistöðum Akureyrar og hafði enga framtíð aðra en ég var góður kokkur. Þessi tilfinngarússíbani fór að lægja þegar ég nálgaðist fertugt og loksins nú um fimmtugt get ég tekið blaðið frá munninum, litið fortíðina augum og sagt ykkur sögu mína. Ég er núna sáttur og er ég hvorki sorrý, svekktur né sár. Ég ber ekkert nag í þessa þrjá menn sem hafa gert mér lífið leitt. Nöfnin á þeim tveim get ég með góðri samvisku sagt þar sem báðir eru nú þekktir fyrir ódæði sín, en nafni hinum þriðja held ég fyrir mig, þar sem ég veit ekkert um hann síðan hann læddist inn í herbergið til mín um hánótt á EDDU hóteli einu hér um árið og vonandi sé ég þann "vin minn" aldrei aftur.
Þessir menn eru veikir, fárveikir. og þeir hafa ábyggilega verið beittir kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru litlir. Það gerist nefnilega oft svona, menn brenglast svakalega í kollinum við svona árásir. Á tímabili var ég skíthræddur að ég myndi brenglast svo mikið í toppstykkinu á ég myndi breytast í það sama skrímsli og þessir misgjörðamenn mínir. En ég slapp vel frá þessu og hef með góðri hjálp konunnar minnar getað unnið mig úr þessu foraði og er ég þó ekki búinn ennþá að súpa kálið úr ausunni. Það var erfitt að horfa á Kastljós í fyrradag (sá báða þættina í bunu) og taka þá ákvörðun að skrifa þessar línur. en ef ég get orðið til þess að hjálpa einhverjum sem hefur lent í því sama þá er þessi upprifjun þess virði.....
Guð blessi ykkur.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Gunni, mér finnst gott hjá þér að skrifa þetta niður. Það líka fær mann til að henda reiður á "ringulreiðinni" innra með manni og raða hlutunum skipulega niður, ef hægt er að orða það þannig. Gott hjá þér!
Ylfa Mist Helgadóttir, 9.1.2013 kl. 20:27
Jahérna elsku Gunni, þetta er hrikalegt, frábær bloggfærsla hjá þér, knús Bidda
Margrét Birna Auðunsdóttir, 9.1.2013 kl. 20:36
Takk fyrir þessa frásögn Gunnar Páll, hún hefur ekki verið auðveld. En skýrir svo margt í mörgum tilfellum. Hve margir drengir ætli séu ekki í þessum sama hnút og þú eftir svona reynslu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.1.2013 kl. 20:51
Gott hjá þér að tjá þig um þetta og þora.
Gunna (IP-tala skráð) 9.1.2013 kl. 22:10
Þakka þér fyrir þessa frásögn Gunnar Páll. Ég vanná Hótel Sögu 1973-81. Þessi frásögn þín er mjög sterk. Þó ég hafi ekki orðið fyrir álíka um ævina, þá skil ég þig vel og þú setur aðferðirnar hjá Karli Vigni mjög vel fram. Takk fyrir.
Sveinbjörn Þorkelsson, fyrrverandi þjónn.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 9.1.2013 kl. 22:28
Þú mátt vera mjög stoltur af því að segja frá þinni reynslu - hver frásögn skiftir máli - engar tvær eru nákvæmlega eins og kannski passar þín frásögn við reynslu einhvers eða einhverra sem fá í framhaldinu kjark til að segja frá - nú opnast flóðgátt og vonandi taka sem flest fórnarlömb til máls.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.1.2013 kl. 22:35
Mikið er SORGLEGT að heyra þetta en á sama tíma hetjuleg skref sem þú stígur með þessari bloggfærslu. Mér finnst alveg skelfilegt hvernig þessir menn nota kirkjustarf til að svala fýsnum sínum! Gangi þér áfram vel að byggja upp gott líf!
Kolbrún Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2013 kl. 22:35
Kúturinn minn ♥
Hrönn Sigurðardóttir, 9.1.2013 kl. 22:38
Sæll Kæri vinur
Ég hugsaði til þín um leið og minnst var á Hótel Sögu í sambandi við Karl Vigni. Ég vonaði svo sannarlega að þú værir ekki einn af fórnarlömbunum, en það var eins og hvíslað væri í eyra mitt að þú værir einn af þessum drengjum. Mér finnst þú mjög hugrakkur að segja sögu þína. Oft er talað um að sannleikurinn frelsi og sé fyrsta skrefið í átt að bata, þó að þú hafir í þessu tilfelli stigið mörg þung spor. Sendi þér hlýjar hugsanir og óska þér alls hins besta. Kærar kveðjur
Sigríður Guðlaug Björnsdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2013 kl. 23:38
Þið sem segið frá eruð hetjur!
Ída Valsdóttir, 10.1.2013 kl. 00:56
Þakka þér fyrir, Gunnar. Stór saga sem þú deilir með okkur. Vann á Sögu '79-82. Mikill, kynferðislegur ofbeldiskúltur sem þreifst þar, bæði orðræða og athafnir. Það var vont að mæta því í vinnunni fyrir unga stúlku. Ég get vel skilið að kokkarnir hafi reynst þér illa því mér fannst þeir verstir. Það er því ekki skrítið að þessi maður og aðrir fengu að halda uppteknum hætti þar. Óska þér innilega velfarnaðar og gróanda í þinni glímu.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 10.1.2013 kl. 08:40
Frábært að þú komir þessu frá þér.
Þú hefur nákvæmlega ekkert til að skammast þín fyrir.
Ekki þér að kenna að svona skepnur yrðu á leið þinni.
Viggó Jörgensson, 10.1.2013 kl. 08:42
Takk fyrir þetta <3
Friðrika
Friðrika Kristín, 10.1.2013 kl. 09:45
Gunni Palli minn. Gott hjá þér að koma sögu þinni fram, það þarf styrk til.
með bestu kveðju Harpa Hjarðar
Harpa B.Hjarðar (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 11:26
Komdu sæll, Gunnar Páll. Þakka þér fyrir að þora að deila þessu.
Ég lenti sjálfur í Helga Hróbjartssyni þegar ég var unglingur. Það var nákvæmlega í ágústmánuði árið 1986, en ég hafði þá verið um tíma í KFUM á Akureyri, en þangað kom Helgi stundum. Það er ekki hægt að segja að karlinn hafi skort skipulagshæfileika, því að hann undirbjó sig mánuðum saman - það var einmitt flugtúr, eins og í þínu tilfelli, krassandi sögur af Afríkuferðum hans (sem ég komst svo að seinna að voru æði margar gróflega ýktar, jafnvel haugalygi) og margt fleira í þeim dúr. Vini mína og jafnvel ættingja heillaði hann að sjálfsögðu upp úr skónum, enda ákaflega mikill og stór karakter.
En svo kom að því að hann lét til skarar skríða - tók mig með í bíltúr eitthvað um Eyjafjörðinn til að byrja með, en það hafði gerst áður. Svo komum við aftur heim til Akureyrar, hvar hann gisti í tjaldi þá nóttina. Hann vildi endilega fá mig augnablik inn í tjaldið, en það kostaði hann smá tíma, þar sem mig var farið að gruna að fiskur lægi undir steini. Ég lét að lokum tilleiðast, enda bara fjórtán vetra og lítill og ræfilslegur (eða eins og það heitir hjá gömlum pervertum - "ákjósanlegt fórnarlamb"). Þegar inn var komið töluðum við eitthvað saman og að lokum vildi ég yfirgefa samkvæmið og koma mér heim. Sagði að foreldra mínir biðu eftir mér, en hann kvaðst vita að þau væru ekki heima (sem útskýrir tímasetninguna, hann hefur væntanlega beðið færis lengi). Ég ætlaði samt að hypja mig, en hann vildi faðma mig að skilnaði. Hann notaði tækifærið til að kyssa mig beint á munninn. Ég herpti saman varirnar og beit svo fast saman að ég fékk blóðbragð í munninn, enda eins gott þar sem hann reyndi að troða tungunni upp í mig.
Þegar hann loks sleppti mér hljóp ég sem fætur toguðu. Spólförin eftir skóna mína liggja líklega ennþá eftir Þórunnarstrætinu. Þá strax langaði mig að segja frá. Ég vissi algerlega að ég hefði nákvæmlega ekkert að skammast mín fyrir, það var ekki ég sem gerði neitt af mér. En ég vissi ekki hvort nokkur myndi trúa mér. Því ákvað ég að reyna að finna einhvern annan sem hefði lent í svipuðu. Ég þorði ekki að segja foreldrum mínum frá, sem voru mistök að sjálfsögðu. En ég sagði nokkrum vinum mínum frá og þeir trúðu mér flestir.
Svo liðu árin og mig langaði að finna einhvern annan sem hefði lent í honum. Ég var viss um að þeir væru fleiri, þó ég vonaði að sjálfsögðu að svo væri ekki. Það liðu mörg ár, en árið 2003 komst ég að því að hann hafði leitað á mann sem ég þekki vel. Sá var 15 ára þegar það gerðist, en það var svo "minniháttar" að við sáum ekki að hægt væri að gera mál úr því. Aukinheldur var þetta fyrnt, svo við vissum ekki hvað væri hægt að gera. Nokkur ár liðu í viðbót.
Svo sá ég grein á ákveðinni bloggsíðu hvar Helgi var mærður í bak og fyrir. Ég bað til Guðs um að eitthvað myndi gerast, þessi níðingur mátti ekki sleppa í gröfina frá þessu. Og skömmu síðar fékk ég símtal. Gamall vinur minn að norðan spurði mig beint út af hverju ég, sem hafði verið mikill vinur Helga sumarið ´86, hafði skyndilega farið að forðast hann sama haust. Ég sagði honum ástæðuna. Hann sagði mér að hann hefði hitt vin sinn, sem hafði lent í Helga. Það hafði gerst áður en ég lenti í honum - og sá hafði lent miklum mun verr í honum. En, sem áður - málin voru fyrnd.
Því var ákveðið, þar sem lögreglan gat ekkert gert, að leita til kirkjunnar. Ég var reyndar fullur efasemda, en þær efasemdir hurfu mjög fljótlega. Fagráð kirkjunnar stóð sig frábærlega í alla staði. Vitnisburðirnir voru orðnir þrír, þó brotin væru misgróf. Helgi var þá, ef ég man rétt, úti í Eþíópíu, en var yfirheyrður og játaði. Því miður var ekkert hægt að gera nema svipta hann þeim réttindum sem hann hafði áunnið sér innan kirkjunnar, en það var skárra en ekkert.
Þú getur rétt ímyndað þér hvað það var mikill léttir eftir rúmlega 24 ár að sjá fésið á honum framan á DV einn daginn skömmu síðar. Skömmin var hans, ekki okkar sem höfðum lent í honum.
Mér fannst ég verða að segja þér frá þessu. Ég var nefnilega viss um að það væru fleiri en við þrír sem hefðum orðið fyrir barðinu á honum.
Ingvar Valgeirsson, 10.1.2013 kl. 12:27
Takk fyrir að rjúfa þögnina. Þá fyrst þegar allir tala opinskátt um sína reynslu geta barnaníðingar ekki athafnað sig. Þeir treysta jú á þögnina. Virði það við þig að nafngreina ekki mann sem ekki er þekktur fyrir glæpi sína en hvet þig eindregið til að hafa samband við yfirvöld og koma nafninu hans í umferð líka því það getur vel verið að hann sé enn í skjóli þagnarinnar að níðast á saklausum einstaklingum og með því að segja til hans getur þú bjargað einhverjum frá honum.
Katrín Júlía (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 12:52
Mjög gott og virðingarvert að fá sem flestar sögur um athæfi barnaníðinga fram í dagsljósið. Ekki til að fólk geti tætt þessa menn í sig á netinu heldur til að koma á jákvæðum farvegi fyrir fórnarlömb og gerendur. Ég er viss um að þeir sem hafa lent í Karli Vigni og barnagirnd hans með einum eða öðrum hætti skipta ekki bara tugum heldur fara vel yfir hundraðið. Eflaust margir sem kjósa að halda kynnum sínum af honum áfram fyrir sig.
Þórður V Oddsson (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 15:34
Thakka ther fyrir innleggid. Er gamall KSS-ingur sjalfur, og thad voru thvi midur fleiri en Helgi. Timi til kominn ad einhver taki bladid fra munninum. Vona ad ther gangi vel ad slast vid "djøflana", their sitja lengi i. Fyrirgefdu stafsetninguna, sit i Noregi.
Magnus Vidir (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 17:36
Enn og aftur vil ég þakka þér fyrir þessa miklu átakanlegu og greinagóðu frásögn.Þú hefur með henni opnað nýtt líf fyrir mörgum.Leið margra liggja nú til lögreglu til að tilkynna um níðingsverk í æsku.Of margir þekkja þetta og finnst eins og talað úr sýnu hjarta.það eru ekki bara nafntogaðir menn sem gera börnum svona lagað.
Í þessum efnum vaknar sú spurning óneytanlega upp " Af hverju fyrnast þessi mál svona fljótt ?"
Börn og óharðnaðir unglingar þurfa meira en 10 ár til að fá kjark og þor til að tjá sig um þetta.
Hafðu þökk fyrir kokksi min <3
Solla Guðjóns, 10.1.2013 kl. 18:03
Mikid er gott ad einhver getur sagt frå. Tu ert svo hugrakkur.
Stina (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 20:00
Gunnar. Þú er einn af þeim hetjum, sem segir frá, til að bjarga varnarlausum börnum.
Svona hetjur eins og þú og fleiri, geta hjálpað kerfissviknum börnum/fullorðnum einstaklingum. Ef enginn vil segja frá, þá geta fjölmiðlar heldur ekki fjallað um glæpaferil kerfisins.
Gangi þér allt í haginn í framtíðinni. Með þessum pistli hefur þú bjargað mörgum manns/sálarlífum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.1.2013 kl. 01:23
Frábært af þér að stíga fram og taka "blaðið frá munninum".
Það sem hefur, mest af öllu, sjokkerað mig við mál Karls Vignis er þöggunin, ó svo margir vissu um girnd þessa manns en aldrei var neitt gert til að stöðva hann endanlega fyrr en í ár, 50 árum of seint.... (og hér gildir samt að sjálfsögðu að "betra er seint en aldrei") í guðanna bænum ekki taka þátt í annarri eins þöggun með þennan þriðja aðila sem brást trausti þínu!
Það að sá maður sé ekki orðinn "alræmdur" þýðir ekki að hann sé hættur iðju sinni og þöggun þín og annarra fórnalamba hans er að gefa honum tækifæri á að halda sinni iðju áfram!
Ég skil vel að það er erfitt að vera sá sem "bendir fingri" eða sá eini sem stígur fram en það er akkúrat það þor sem öll börn sem í þessum mönnum lenda þarfnast.
Þú vilt jafnvel ekki rita nafn hans hér, á þína bloggsíðu, en í guðanna bænum leitaðu til lögreglu og láttu vita af manninum svo hægt sé að rannsaka hvort þú sért sá eini sem lent hefur í honum (sem mér þykir afa ólíklegt). og til að tryggt verði að hans girnd verði undir eftirliti einsog hinna sem upp hefur komist um.
m.b.k.
Kristrún.
Kristrún Ósk Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 19:35
Reyndar hefur líka stigið hér fram Ingvar Valgeirsson og færi ég honum líka bestu þakkir fyrir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2013 kl. 19:59
Ég vil þakka fyrir þessi skrif. Mér finnst þið algerar hetjur að stíga fram og ég vona svo innilega að þessi skrif hjálpi öðrum.
Megi ykkur vegna vel í framtíðinni.
Með kærleikskveðjum
Vilborg Ölversdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 10:14
Kæri Gunnar. Þakka þér innilega fyrir þessu yfirveguðu, heiðarlegu og greinargóðu skrif. Sem ég ætla að deila áfram og vona að sem flestir læri af. Guð blessi þig og framtíð þína!
Þorsteinn K Kristiansen (IP-tala skráð) 13.1.2013 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.