IÐUNN IN MEMORIAN.


Í nóvember mánuði kvöddum við fjölskyldan okkar  einn náinn vin og félaga. Einn sem tilheyrði fjölskyldunni, hana Iðunni okkar kæru. Iðunn, hundurinn okkar var orðin svo veik af gigtinni að ekkert annað var hægt en að láta hana fá friðinn. Dýralæknirinn kom heim til okkar og allt gekk þetta eins og það átti að vera og nú ertu farin og laus við kvalirnar. Nú ert þú hluti af hundasálinni og hefur það gott. Húsið varð skyndilega hálf tómt þó að hann Lappi okkar hafi nú heldur betur tekið við sér og fylli nú litla húsið okkar með frekjunni sinni og látum.
Hversdagsleikinn er fullur af minningum um þig, Iðunn mín og hver gjörð líka.
Þú varst svo lítil þegar við sáum þig fyrst, en séu eina sem við tókum eftir úr systkinahópnum, lang fjörugust og fyrsta sem var með eyrun upprétt sem er gáfumerki hjá ykkur hundunum. Við náðum svo í þig seinna og varst þú strax augnayndi og hjartagull allra. Líka þegar þú stækkaðir og bjánalætin í þer urðu fyrirferðarmeiri og sýnilegri. Áhugi þinn á fótbolta var óskaplegur, hann Siggi okkar gat aldrei átt fótbolta. eins mikið og hann óskaði þess. Sprungnir og sundurétnir fótboltar hafa prýtt æskuminningu hans sem varð bara að snúa sér að öðrum áhugamálum. Eplin á jörðinni sem nú prýða landslagið minna líka á hversu hneigð þú varst fyrir þess íþrótt, er þú á göngutúrum okkar alltaf greipst eitt eplið í munninn hljóp nokkur skref  í burtu sleppti eplinu og bauð svo upp í dans. Það skifti engu máli þó að kjamminn á þér yrði rauður og þrútinn eftir boltaleikinn þú varst alltaf jafn ánægð og hreykin þegar uppi var staðið. Næturtúrarnir okkkar sem við fórum í þegar ég kom seint heim úr vinnunni og enginn annar var á ferli og þú labbaðir bara á undan eða á eftir, Við skiftum með okkur nætursnarlinu og þú fékkst þér bjór með mér og stundum  þegar ég fékk mér einn wiskhy eða romm þá lagðir þú höfuð þitt í kjöltu mína og góndir biðjandi á mig og svo á drykkinn. Hversu glöð varðstu ekki þegar þú varst búin að lepja veigarnar úr lófa mínum. Þá vorum við pottur og panna, við bæði tvö. 
Ást þín á öllu ungviði var velþekkt hvort sem þau voru afkvæmi manna, kanínu, katta, hænu eða hunda. Allt þetta kveiktií móðurástinni þinni sem þú hafðir í svo ríkum mæli að við fórum oft með þig til vinarfólks okkar eitt haustið,  þar sem hundurinn þeirra beið þín og þið dúlluðu ykkur á meðan hinn stolti pabbi og hin áhyggjufulla mamma fengu sér hressingu. Eitthvað fór víst úrskeiðis væna mín því aldrei varð nú barn úr brók og þú varðst bara að veita móðurást þinni útrás á öllu ungviðinu sem var fyrir hendi í ríkum mæli á kirkebakken1. Við vorum aldrei hrædd um það á þessu tímabili að þú myndir stinga af þar sem við gengum alltaf að þér vísri við stóra kanínubúrið við hliðina á galleríinu.  Þú aldir upp fullt af köttum, hænuungum og sást um það að kanínuungarnir væru á sínum stað í búrinu, sleiktir þá og nússaði með nebbanum. Þú varst eiginlega mamma númer tvö á heimilinu. Settleg lagðist þú í stólinn og hraust svo fallega með eina af kisunum malandi á maganum þinum eða kúrandi í hálsakotinu. Þú hafðir einstaka hæfileika til að vera miðpunktur alls. Þeir eiginleikar komu svo vel í ljós yfir matarborðinu, þegar þú laumaðir þér inn undir borðið lagðist á gólfið við fætur okkar þar sem lyktin vat sterkust og stemmingin best og fékkst það sem þú ætlaðir þér. ATHYGLI. Allir fengu að kynnast prumpulyktinni þinni háir sem lágir.
Eða þegar Gallerý GUK+ var og hét, þá sast þú alltaf fyrir framan kanínubúrið við innganginn, hundstressuð yfir kanínuungunum. Sem margar af myndunum frá heimasíðunni vitna um.
Iðunn mín, þú tíndi jarðarber saman með Sigrúnu Sól, kúkaðir allstaðar á lóðinni, hræddi líftóruna úr amk. þremur kynslóðum af póstútburðarfólki + einhverjum af nágrönnum okkar, passaði að það væri ekki of mikið af krákum og störrum að borða matinn þinn. Þú tókst þátt í að skifta á Sólinni þegar hún vat lítil og hreinsaðir þær bleyjur sem þú náðir í á þinn einstaka og blíða hátt. Þú gerðir semsagt allt til að verða ein af heimilisfólkinu.
Þegar Elli kelling byrjaði að hrella þig fannstu ró og hita í rúminu mínu þar sem þú kúrðir þétt upp að mér undir sænginni til að fá hita í auma gigtarlendina. Svo vaknaði ég með munninn fullan af hárum og eina ánægða Iðunni í fanginu. Ég man ennþá eftir ilminum af pelsinum þínum og hvernig þú naust þess að kúra upp að mér og láta mig klóra þér á bringunni, seinna fórstu svo að eiga erfitt með að brölta upp stigan og við hjálpuðun þér eins og við gátum því að þér þótti svo gaman að vera með okkur uppi í herbergi og helst undir sæng.
Hið síðasta sumar þegar við vissum að hverju stefndi þá bjuggum við um þig niðri í stofu og þar lástu eins og drottning allt sumarið.  Við áttum erfitt med að viðurkenna fyrir okkur það sem  var að gerast hjá þér vina mín og drógum það lengi að taka ákvörðunina miklu og oft vonaði ég að þú hefðir fengið andlát í svefni og værir bara farin þegar við kæmum á fætur en þú varst alltaf á róli þegar ég kom niður eldsnemma á morgnana og þá varð ég alltaf svo glaður að fá að hafa þig amk. einn dag í viðbót.
Þú fylltir líf okkar af lífsgleði og varst allstaðar með langa svarta nebbann þinn.
Það er skrýtið að vera í litla húsinu okkar þegar þú ert farin vina mín, en svona er nú lífið, það eina er víst að þegar maður fæðist er að maður deyr einhverntíman seinna. Það er bara spurning um stað, stund og aðstæður.  Stór orð þegar maður sjálfur gengur í gegn um ferilið, en sönn engu að síður. Ég er glaður að hafa mátt upplifa öll þessi ár saman með þér og þakklátur. Ég vil ekki gráta þig meira og sleppi þér, megi sál þín vera stór búbót fyrir hundasálina þar sem þú ert núna.
Vertu sæl Iða mín og takk fyrir allt.
Gunni Palli Pabbi.

   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 10.12.2007 kl. 21:21

2 Smámynd: SigrúnSveitó

Vá, Gunni, yndislegar minningar, fallega skrifuð orð.

Fær mig til að hugsa til Spora, sem í mínum huga er yndislegasti hundur sem uppi hefur verið.  Hundurinn sem við fengum jólin þegar ég var 7 ára.  

Eigðu góðan dag

SigrúnSveitó, 11.12.2007 kl. 08:21

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

falleg minning Gunni minn.

Ylfa Mist Helgadóttir, 11.12.2007 kl. 11:41

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Svakalega vel skrifuð & falleg færsla,

Takk... 

Steingrímur Helgason, 17.12.2007 kl. 01:20

5 Smámynd: Agný

 Samhryggist ykkur.

Dýrin okkar eru hluti af fjölskyldunni þannig að það er alltaf sorg þegar þau kveðja. Þekki þetta sjálf og synir mínir í sambandi við kettina okkar. Verst er þó þegar þau hverfa og enginn veit um afdrif þeirra. Núna eru 8 kettir hér á heimilinu...5 þeirra eru 3 vikna krútt svo það verður fjör hér á jólunum en þau verða akkurat mánaðar gömul 24 des og 25 des...ekki öll fædd sama dag...

Agný, 17.12.2007 kl. 05:22

6 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ég var ánægður með að Iðunn svaf hjá mér síðustu nóttina sem ég gisti hjá ykkur...

Guðni Már Henningsson, 17.12.2007 kl. 12:22

7 Smámynd: Solla Guðjóns

Frábær færsla og yndisleg minningar.

Solla Guðjóns, 18.12.2007 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband