Matreiðslukeppnin.

Matreiðslukeppnin.
Á morgun, á morgun. Já já!
Þessi Sikileysku dagar voru á miðvikudegi og fimmtudegi. Tempóið hægt og við tiplandi á tánum alveg á fullu við að undirbúa okkur fyrir keppnina (svona í hausnum allavega) Pointið var að komast til Sikileyjar, maður lifandi.
Heil vika þar sem allt er heimsótt, vínhéruð, veitingastaðir, ávaxtaplantekrur mm. Allt borgað. Það þýddi að við vorum að finna aðstöðu, skrifa niður og taka til krydd
 og allavega, í laumi á meðan Ítölsku kokkarnir voru að vandræðast yfir lélegri eldavél og þessháttar.

IMG_6812
En það flaut allt í góðu hráefni: sverðfiskur og túnfiskur. Bæði reyktur og ferskur(glænýr) Þurrkuð túnfiskhrogn ”bottarga” sem notuð eru til að rífa yfir réttina til að gefa þeim síðasta finish. Risarækjur og smokkfiskar í öllum stærðum og tegundum. Grænmeti var líka fyrstaflokks og fjallaoreganóið sem bragðaðist eins og blóðberg. Sítrónur, sætar og alls ekki súrar, og svo að sjálfsögðu ólífuolía í þeim gæðaflokki sem ég aldrei hef bragðaða áður . Við vorum búin að spotta það að keppnin ætti að byrja kl: 11. Tíu mínútur í, voru kokkarnir að leggja síðustu hönd á pastarétt með túnfiski og reyktan túnfisk með appelsínum.

IMG_6854

IMG_6853

IMG_6855
Við litum hvert á annað og spurðum okkur sjálf hvort keppnin ætti ekki bráðum að byrja?  Réttirnir voru svo kynntir og svo sagði einn kokkana að við mættum bara byrja á keppninni og vera búin með einn rétt eftir ca. einn tíma eða þrjú korter.
Allir ruku af stað að finna pláss, hráefni, græjur og aðstöðu á eldavélinni. Ég deildi 2ja fermetra borði með tveimur kokkum og eldavélinni með öðrum fimm. Við bölvuðum skipulagsleysinu í sand og ösku og ekki tók betra við með eldavélina sem bara virkaði og virkaði ekki. En þetta allt saman varð til þess að við slöppuðum af gagnvart hvort öðru og gífurleg samstaða myndaðist bara eftir tíu mínútur. Pannan of heit, eða sauð í pastapottinum hjá keppinautunum. Það var mjög skemmtilegt.                                          Ég hafði óljósa hugmynd um soufflé fiskibollur  með kóralnum úr rækjuhausunum. Pasta og eggaldinmauk, rifið bottarga, flatar rösti kartöflur og fiskisalat. Af stað, af stað maður. Pottar á eldavélina, einn með saltvatni fyrir pastað og svo hinn með hvítvíni, kryddjurtum og vatni fyrir fiskibollurnar. Svo skræla kartöflurnar og rífa í skál saman með hvítlauk, smá salti og fjallaoreganói, vinnuborðið leit út eins og risa haugur þar sem öllu ægði saman. Ég fann svo plastpoka sem dugði fyrir ruslið. Henti sverðfiskinum í blandarann með kóralinum/innmatnum, eggjum og kryddi. Blanda blanda blanda, fljótur maður, farsið í kæli á meðan sauð ég kjúklingabauna”hveitið” í þykkan graut með kryddjurtum. Hella maukinu á plötu og þurrka svo hægt væri að steikja það svona á la polenta.  IMG_6769

 IMG_6743

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það slokknaði undir pottinum sem ég ætlaði að sjóða smokkfiskinn í svo að ekki var annað hægt en að gleyma honum. Smokkfiskurinn átti að sjóða í 20 mín. Annars yrði hann ekki meyr og svo ætlaði ég að steikja hann saman með risarækjunum. Burtu með kvikindið! Eggaldinin voru skræld í kvelli og skorin í bita og steikt í ólífuolíu….og hver tók helv.. ólífuolíuna? HALLÓÓ!!! Ertu búinn? Ókey hentenniímig! Takk! Hvað?? Gersovel, hér er saltið! Mauka eggaldinin í blandaranum með meiri ólifuoliu hvítlauk og appelsínusafa og fjalla oregano. Mmmmmmmm skapið léttist og kannski fer þetta bara allt vel ☺ Henti svo svartri pönnu á eldavélina, kreisti handfylli af rösti kartöflum og flatti út í þunna pönnuköku og steikti svo á báðum hliðum. Best að gera þrjár svo ég geti valið þá bestu hugsaði ég á meðan ég renndi handfylli að pasta penne í suðuvatnið og svo vantaði mig skeið til að forma bollurnar með.                                  Ég hljóp til yfirkokksins og bað um; spoons, pleace! Hann ljómaði allur upp og sagði eftir mér, ”ahh, spoons!” Si si! sagði ég. Spoons (með áherslu). Hann sneri sér að vini sínum sem er yfirkokkur á offisjéraskóla og sagði ”spoons” og svo eitthvað annað á Ítölsku. Það lifnaði líka yfir honum og hannn sagði líka  ”ahh, spoons” voða glaður og sneri sér svo að hinum þriðja og sagði: spoons, plús Ítölsku, ábúðarfullur á svipinn. Sá þriðji endurtók; Spoons? Veifaði með höndunum með uppgjafarsvipbrigðum og fór svo bara að skera túnfisk. Svo löbbuðu þeir bara í sín hvora áttina.                                          Öskureiður gafst ég upp og ákvað bara að forma bollurnar með puttunum. Á meðan ég í huganum óskaði ég Sikileysku mafíunni alls góðs gengis og mætti hún afmá þessa helv…. eldfjallaeyju af landakortinu og það í kvelli.
Bollurnar urðu bara nokkurnvegin kringlóttar og alls ekki svo slæmar ! Pastað sauð og ég beit í eitt rörið, yndislega al dente. Uppúr með það.  Svarta pannan var aftur orðin heit og þar fóru risarækjurnar á sem í tilefni dagsins voru pillaðar. Aaaaðeins 10 sek á hverri hlið á grængulri heitri pönnu, skarpgrilluð að utan og rare í miðjunni. Skapið batnaði svo eftir sem tíminn leið og allir fóru að fá mynd á réttinn sinn. og Sikiley er bara ekki sem verst og kokkarnir bara fínt fólk. Ég sendi hraðskilaboð til Jómfrú Maríu með afsökunarbeiðni og syndaafláti, þessi blessaða eyja hýsir líka systurfjall Heklu! Mafían? Sveiattan! 
Kjúklingabaunamaukið skar ég í tígla og steikti þá stökka á pönnunni með helling af salti. Þeir fyrstu voru farnir að skila réttinum sínum, en þar sem tímaskyn Sikileyinga sýndist mér vera svona og svona hafði ég ekki miklar áhyggjur ennþá!                                                                                                           Svo hitaði ég eggaldinsósuna saman með pastarörunum, gerði fljótlegt salat úr dísætum tómötum, vorlauk, ólífuolíu, risarækjunum og fersku kóríander. Röstikartöflurnar fyllti ég svo með salatinu og lokaði svo, eins og pönnuköku. Pastarörin fóru svo á hinn helminginn á disknum, ein fiskibolla ofaná og svo reif ég túnfiskhrognin yfir. Kjúklingabaunatíglarnir voru svo settir hér og þar.
Inn með diskinn og lagt með andagt á borðið fyrir framan dómarana sem voru einmitt á fullri ferð að smakka á réttunum. Ef þannig er hægt að komast að orði. Það tók þá nefnilega heilan tíma að smakka á öllum réttunum.

IMG_6949

 

 

 

 

 

 

 

Í millitíðinni fórum við nokkur stykki út í eldhús  að taka til þar var að sjálfsögðu allt á hvolfi og róaði það taugarnar að dunda þetta, svo fór maður að vera krítískur og spá í hvort þetta hefði ekki bara verið tveir  réttir og ég hefði ekki átt að sleppa kartöflunum? Hvað um það, við löbbuðum svo út í salinn þar sem dómararnir voru komnir í hávaðarifrildi út af fyrstu sætunum. Það létti skapið hjá okkur sem biðu eftir niðurstöðunum á sjá þetta og skemmtum við okkur konunglega. Svo loksins var kallað á okkur og tilkynnt að fyrstu tvö sætin hefðu fengið jafn mörg stig þannig að þau færu bæði til Sikileyjar (heil vika með öllu saman)

IMG_6988

 

 

 

 

 

 

Þau voru svo klöppuð upp og svo var kallað á þriðja sætið (ég) og var mér svo afhentur plattinn ☺ Restin af tímanum fór í að spjalla saman og óska vinningshöfunum til hamingju. Þau sem fara til Sikileyjar voru svaka happy, annar er kokkur hjá VIP og hin (stúlka)skrifar um mat í Familie Journalen, það kemur svo ábyggilega Sikileyskt þema í blaðið einhverntíman eftir ágúst og kannski ferðin öll.                          Daginn eftir var svo galadinner og sátum við keppendurnir saman og sögðum tröllasögur af hvort öðru á milli réttanna sem voru ca; 12. Með svona 8 víntegundum. Takk!
En það er nú önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þú ert snillingur Gunni Palli kokkur

Hrönn Sigurðardóttir, 10.6.2008 kl. 23:14

2 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Snilli snilli..

Haraldur Davíðsson, 10.6.2008 kl. 23:18

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég skil ekkert í því að þú hafir ekki unnið, þú sem varst í svo miklu andlegu jafnvægi og úthvíldur ástin mín !!!

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.6.2008 kl. 11:45

4 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Þú vanst.... hitt var dómarahneyksli...

Guðni Már Henningsson, 11.6.2008 kl. 14:54

5 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þú ert sko uppáhaldskokkurinn minn og ég gef þér fullt hús, bara fyrir útlistunina á þessu, hvað þá hefði ég smakkað eitthvað af þessu!!!

Mmmmmmmmm

Ylfa Mist Helgadóttir, 11.6.2008 kl. 18:29

6 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Svaka fjör í kokkaríinu!!! Góður!!!

Guðrún Þorleifs, 11.6.2008 kl. 18:48

7 Smámynd: Dísa Dóra

Vá þetta hefur sko verið heldur betur fjör   Til lukku með vinninginn

Dísa Dóra, 12.6.2008 kl. 17:15

8 identicon

Sællvertu, þakka þér fyrr innlitið, gaman að heyra í einhverjum sem dvalist hefur í Kaldaðarnesi, en Borgu og Eyþór þekkti ég vel, á eina góða sögu af þeim hjónum, fyrirtaksfólk. Kveðjur til Danmerkur, sem mér þykir vænt um.

Sólveig Hannedóttir (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 00:31

9 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Dásamlegt, ekkert minna en það. Heill þér !

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.6.2008 kl. 20:53

10 Smámynd: Solla Guðjóns

Ummmmmm langar í rösti kartöflur með akkúrat þessu salati sem þú lýsir ,,hlýtur að vera gott...

Assskkk hefur þetta verið mikið pirrandi fjörspoons!!

Skemmtileg færsla og aftur til hamingju.

Solla Guðjóns, 14.6.2008 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband